Ásta skásta

28 október 2004

Ég hlakka sko til þvílíkt til laugardagsins.

Ég er nefnilega að fara með Ámunda og vinnunni hans á villibráðarhlaðborð í Perlunni á laugardaginn. Ég er búin að hlakka til síðan í september eða eitthvað svoleiðis. Það vita líka allir í vinnunni hans Ámunda hvað ég er orðin spennt og síðan vita þau líka öll að ég er svefnpurrka dauðans. Ámundi er nebbla búin að segja þeim oft frá því hvað ég á það til að hrjóta yfir sjónvarpinu og hvað mér finnst gott að fara snemma í bælið. Hann Kristján í vinnunni hans Ámunda hafði meira að segja áhyggjur af því hversu seint hlaðborðið byrjar, hélt að ég væri löngu sofnuð klukkan níu. Jebb, ég er orðin brandari í vinnunni hans Ámunda!!!

En ég hlakka nú samt geggjað til að fá að smakka hreindýrakjöt, loksins, loksins, loksins...

Fyrir Perluna er liðinu boðið heim til Vífils í vinnunni hans Ámunda og þar verður boðið upp á hvítvínsglas. Eins og þeir sögðu við Ámunda, bara eitt glas... hehe

Síðan eftir Perluna þá er partý í Pálmaristan. Hlakka bara til að djamma með sóðabrókunum þær eru svo mikil snilld :o) Eintóm snilld! Þar kem ég nú til með að drekka eitthvað meira heldur en bara eitt hvítvínsglas.

Þokkalega góður laugardagur og laugarnótt framundan.

Ég fór í Búrfell með vinnunni í gær. Fórum fjögur saman og það var agalega fínt. Gaman að gera eitthvað annað en að sitja á skrifstofunni og glápa á tölvuskjá. Núna fékk ég nebbla að sitja í bíl og horfa á marga mismunandi skjái þegar ég mætti á staðinn!!

Sigrún úr Njarðvík er að vinna í Búrfelli og við kíktum við hjá henni. Hún er þarna eiginlega alla vikuna en fer svo heim um helgar. Sniðugt að vera í svona djobbi í sveitinni þar sem er ekki séns að eyða krónu. Ég sá alla vegna ekki neina sjoppu í grennd! Síðan er bara matur á línuna og ekkert vesen :o)

Ásdís Jóhannesdóttir, nýr starfsmaður hjá Landsvirkjun. Bara gaman :o)

Ásdís kemur á morgun að vinna á næstu hæð fyrir neðan mig en verður nú samt hérna eitthvað aðeins lengur en ég...

Það verður bara frábært að fá hana í húsið :o)

25 október 2004

Helgin lenti eiginlega bara á bólakafi í reikniverkefni 2. Ég var bara í rólegheitunum og hafði það gott með nammipoka og sjónvarpinu á föstudaginn.

Fór síðan í útskriftarpartý hjá Ásdísi skvísu á laugardagskvöldið. Hún var með þetta líka fína partý, bjór og bolla á línuna. Ég var nú samt í rólegri kantinum, enda var reikniverkefnið ógurlega að bögga mig allan tímann. Svaka gaman að hitta Ásdísi aftur, hún er agalega brún og sæt og með dökkt, dökkt hár... svo á hún líka B.Sc. skírteini. Svo var líka stuð að hitta strákana okkar :o)

Sunnudagurinn var agalegur reikniverkefnisdagur og ég missti af þessu fína matarboði í Þorlákshöfn :o(

22 október 2004

Jei, Hildur er á lífi í útlandinu :o) Fréttir herma að bréf sé á leiðinni í Fornhagann :o)

Föstudagur í dag, bara gaman. Laugardagur á morgun, meira gaman. Á morgun er nefnilega útskriftarpartý hjá Ásdísi skvísu í rafmagninu. Það verður agalega gaman að sjá hana og rafmagnsgengið. Sem sagt, djamm, djamm, djamm annað kvöld. Loksins fer ég á laugardagsdjamm og nú bind ég allar mínar vonir við það að ég endist lengur en til tólf...

Ætla að lesa smá skólastöff eftir vinnu... en langar svo bara að vera heiladauð framan við sjónvarpið í kvöld. Sjáum hvað gerist :o)

20 október 2004

Ég var alveg á fullu í draumaheiminum í nótt. Var aldeilis önnum kafin við að flýja undan einhverjum ógeðslegum perrakalli sem ætlaði að stela pítsunni sem ég hafði verið að kaupa mér. Síðan stal hann bílnum mínum þegar ég fór inn og svo þegar ég leitaði þá fann ég bílinn í kjallaranum hjá kallinum. Alltaf gaman að vera í ruglinu á nóttinni.

En eftir draumavitleysuna hrökk ég upp af ekki svo agalega værum blundi og hélt að ég væri orðin allt of sein í vinnuna. Beið aðeins eftir að vekjaraklukkan færi af stað, en það gerðist ekki þannig að ég kíkti á klukkuna en þá var hún bara að verða sex og ég gat haldið áfram í eltingaleiknum við perrakallinn.

Síðan einhverju seinna þá mætir einhver og byrjar að berja í hurðina hjá okkur. Það er bara ein kona sem gerir það... nebbla skvísan við hliðina á okkur. Klukkan var ekki einu sinni orðin sjö þannig að mér datt ekki einu sinni í hug að fara á fætur, er meira að segja erfið framúr eftir að klukkan hringir hvað þá áður en klukkan svo mikið sem spáir í að hringja. Sú gamla ber í hurðina nokkrum síðan í viðbót og reynir síðan hurðarhúninn. Hvað er málið? Ætlaði hún bara að mæta inn til okkar og reka okkur á lappir???

En svo fer klukkan af stað 7:15 eins og alltaf og þá er kominn tími til að stíga á fætur. Örstuttu seinna er konan mætt aftur á hurðina og þá kemur í ljós að hún var búin að segja einhverjum gaurum sem eru að setja ljósleiðara í húsið að hún myndi verða heima fyrir hádegi og gæti þá hleypt þeim inn til okkar líka. Ég var svo útúr því að ég vissi ekkert hvað ég ætti að segja og hélt bara kjafti en ég ætla sko að ræða þetta við hana seinna.... ...ef ég þori!

18 október 2004

Er ekki enn farin að þjóna Ámanum með því að hlaupa í ísskápinn og sækja bjór, brjóst, topp, tott og fleira en það kemur svo bara í ljós einhvern tímann hvað hann fær úr skápnum...

En ég var agalega indæl og sleppti honum lausum í bekkjarpartý á föstudaginn. Þar var hann bara geymdur í góðra vina hópi og hafði það gott og djammaði fyrir okkur bæði.

Ég var hins vegar bara sallaróleg á föstudaginn, byrjaði í vísó og fékk svolítið mikið hvítvín þar og það var eiginlega ástæðan fyrir því að ég fór ekki með Ámanum í bekkjarpartýið, þannig að ég fæ kannski ekki stig fyrir að vera góð og hleypa honum einum út á lífið... Ekki það að ég sé yfirleitt með hann í keðjunni!!!

Við vorum bæði frekar sloj á laugardaginn en ég vann kraftakeppnina og dreif mig í bæjarferð til Kef. Tók Önnu mína með mér til að hjálpa Önnu minni að flytja. Jebb alltaf ruglingur þegar allt er morandi í Önnum eða Ástum eða fleiri en tveimur af hverju sem er.

Anna María og Emil eru nebbla að flytja. Þau völdu einföldustu íbúðina til að flytja í, nebbla íbúðina beint fyrir neðan íbúðina sem þau búa í núna. Ég hélt að það yrði geggjað einfalt fyrir þau að flytja en það endaði sko ekki þannig. Það eru nebbla búin að vera "smá" vandamál hjá þeim.

Til að byrja með fannst raki í nýju íbúðinni og svo fannst líka afleiðing rakans. Þá komu kallar með slöngu og ætluðu að pumpa vandamálinu út. En þá kom nýtt vandamál sem olli enn öðru nýju vandamáli. Slangan nebbla sprakk og vitleysingarnir sem komu með slönguna ákvaðu að koma henni fyrir inní íbúðinni en ekki úti eins og vaninn er að gera. Nýja vandamálið var núna risapollur inn á gangi og meiri íbúðaskemmdir.
Þegar búið var að leysa öll þessi vandamál kom í ljós að upphaflega vandamálið var ekki vandamálið eftir allt saman. Þannig að nú var það bara núllpunktur upp á nýtt. Nýja vandamálið fannst og til að leysa nýja vandamálið þurfti að moka fullt í garðinum hjá þeim, skipta um rör og dúka og jarðveg og allt saman. Þannig að núna er bara allt í drullumalli, íbúðin nánast fokheld og þau búa í Innri-Njarðvík í glænýju íbúðinni hjá mömmu og pabba Emils og nota slöngu í bílskúrnum við tannburstunina því að það er ekki búið að tengja vatnið. Smá ævintýri hjá þeim... humm..

En núna er bara fullt að gera hjá Önnu og Emil við að gera nýju íbúðina sína alveg eins og þau vilja hafa hana. Þetta verður bara flott hjá þeim :o)

Laugardagskvöldið hjá okkur Ámunda fór í að hjálpa Önnu systur með smá stærðfræði og horfa á Poltergeist heima hjá mömmu. Bara nice stund það og síðan bara heim að kúra og hafa það ljúft, ekkert fylleríiskjaftæði.

Það var bara gaman að kíkja út með Eydísi og Ásu. Við fórum á Vegamót og borðuðum ansi vel yfir okkur :o) Nammi, nammi, nammi! Aumingja Heiður missti af öllu stuðinu þar sem bossinn hennar er að reyna að breyta henni í vinnualka og þar er hún bara geymd þessa dagana.

Við skvísurnar uppdeituðum fréttir hvor af annarri á milli munnbita og það virtist nú vera þannig að Ása skvísa í Danmörkunni hafði mest að skemmtilegum fréttum enda býr hún í útlandinu með útlenskum skvísum en er ekki föst í gamla farinu hérna heima. Já ég hlakka dálítið til að flytja út :o)

En við vorum samt ansi sammála um það að okkur vantaði sko svo sannarlega fréttir af Hildi skvísu sem er líka í útlandinu. Ertu þarna Hildur? Svo eru náttla fleiri vinir í útlandinu, en maður fær samt oftar fréttir af þeim, enda kemst maður í virk blogg þeirra af og til.

13 október 2004

Ámundi tók upp á því í gær að bjóða mér út að borða algjörlega að tilefnislausu. Eintóm gleði með það á mínum bæ :o) Nú verð ég bara að finna eitthvað sniðugt til að gleðja snáðann... Höfuðið hér með komið í bleyti.

Síðan höfðum við það bara huggulegt heima í gær og geymdum fæturnar upp á nýja sófaborðinu sem við fengum í IKEA. Eintóm gleði með það líka.

Á morgun er síðan planið að hitta Ásu, Eydísi og Heiði og hafa gott skvísukvöld. Ása María er í ca viku heimsókn hérna á Fróni og um að gera að rekast á hana áður en hún fer.

12 október 2004

Helgin liðin og gott betur en það.

Guðmundur Árni var hinn sprækasti og gott betur en það. Við bökuðum, gáfum öndunum, kíktum í bíó, horfðum á morgunstundina okkar (dálítið langt síðan ég hef gert það) og dunduðum svona ýmislegt.

Guðmundi Árna fannst einstaklega gaman að horfa á einhvern annan í Nintendo galdragripnum sem við Gugga keyptum fyrir ansi mörgum árum síðan. Þetta átti að vera þvílík snilld að setja upp tölvuna inn í herbergi og fá hann til að leika sér svolítið þar. En nei, nei aðal kikkið hjá Guðmundi var að horfa á okkur í tölvunni þannig að til að þóknast drengnum þá var ég dáldið mikið í tölvunni um helgina :o)

En alla vegna þá er Guðmundur Árni yndislegt eintak og agalega mikið krútt. Helgin varð nú samt ekki til þess að koma eggjastokkunum af stað hjá mér... hehe


08 október 2004

Þá eru Magga og Pabbi farin út og Guðmundur Árni kominn í helgarpössun hjá mér og Ámunda. Reyndar er hann núna hjá Árnýju frænku sinni svo við getum verið dugleg að vinna.

Ég gisti hjá þeim í Kópavoginum í nótt því að þau fóru svo snemma. Þannig að við Guðmundur Árni vöknuðum saman. Það gekk alveg ágætlega en tók samt miklu lengri tíma en ég bjóst við. Hann vildi helst bara fara strax heim til mín og var ekki alveg að samþykkja það að ég þurfti að vinna. En Magga var greinilega búin að undirbúa hann vel fyrir helgina því hann sætti sig alveg við að þau væru í ferðalagi eftir að hann var almennilega vaknaður.

Nú hlakka ég bara til að sækja strákana mína eftir vinnu og það verður einhver gleði í gangi um helgina.

Knús og kossar og góða helgi allir saman.

05 október 2004

Nýjustu fréttirnar eru þær að Guðmundur Árni bróðir minn ætlar að gista hjá okkur um helgina. Það verður nú líklegast líf og fjör og svaka helgi framundan. Veit ekki alveg hvað við eigum að gera en við finnum nú líklegast eitthvað sniðugt til að bralla.

Guðmundur Árni verður 4 ára 1. desember næstkomandi. Hann hefur aldrei áður gist hjá mér og ég hlakka agalega mikið til :o) Nú verður maður sko að vinna sér inn stig og komast á topp tíu listann hjá snáðanum.

Það er sem sagt bláedrú helgi framundan! Síðasta helgi var þó ekki alveg edrú.

Föstudagurinn var vísódagur sem endaði alltof snemma þegar ég sofnaði á Kaffibarnum. Aumingja Kolla sem var með mér! Frétti svo af því að engin önnur en Julia Stiles hefði tjúttað á dansgólfinu seinna um kvöldið. Á eftir að komast að því hvort að Kolla hefði rekist á hana á barnum eða einhvers staðar. Eftir kríuna á Kaffibarnum tók ég stefnuna heim og horfði sofandi á sjónvarpið með Ámunda mínum og Gebba hans. Núll stig fyrir ástuna þetta kvöldið...
Regla númer fjögur: bannað að leggja sig á djamminu.

Laugardagskvöldið fór öllu betur. Anna María og Gebbi kíktu til okkar í mat sem var agalega lengi að verða tilbúinn... það stóð sko 45 mín á pakkanum en það tók alla vegna 90 mín að kokka og það á miklu hærri hita heldur en mælt var með. Ætli það sé reiknað með því að gestir mæti allt of seint þegar eldunarleiðbeiningarnar eru gerðar?????

Við Anna fórum í ferðalag, byrjuðum á að kíkja á Sóðabrækurnar í Vesturbænum. Þar var líf og fjör fullt af skvísum og tveir gaurar. Annar þeirra þótti ekki nægilega sætur og fínn þannig að hann var bara sendur heim í önnur föt. Það er nú meira hvað þær fá að stjórna gæjunum!!!

Síðan fórum við Anna í langferðalag upp á Hótel Höfða Skipholti. Þar tóku Hildur og Sigga á móti okkur í góðum fíling og við vorum allar glaðar konur fram eftir kveldi :o) Hildur skvísa fékk skell á bossann fyrir að vera með einhver læti og Anna María náði mynd af handafari á bossanum og þar sést að gaurinn er sko ekki með lengri putta en ég... Segir það eitthvað um eitthvað annað, ég veit alla vegna ekkert um það.

Eftir bæinn var stefnan svo tekin niður í bæ og fastir liðir eins og venjulega áttu sér stað...