Ásta skásta

20 október 2004

Ég var alveg á fullu í draumaheiminum í nótt. Var aldeilis önnum kafin við að flýja undan einhverjum ógeðslegum perrakalli sem ætlaði að stela pítsunni sem ég hafði verið að kaupa mér. Síðan stal hann bílnum mínum þegar ég fór inn og svo þegar ég leitaði þá fann ég bílinn í kjallaranum hjá kallinum. Alltaf gaman að vera í ruglinu á nóttinni.

En eftir draumavitleysuna hrökk ég upp af ekki svo agalega værum blundi og hélt að ég væri orðin allt of sein í vinnuna. Beið aðeins eftir að vekjaraklukkan færi af stað, en það gerðist ekki þannig að ég kíkti á klukkuna en þá var hún bara að verða sex og ég gat haldið áfram í eltingaleiknum við perrakallinn.

Síðan einhverju seinna þá mætir einhver og byrjar að berja í hurðina hjá okkur. Það er bara ein kona sem gerir það... nebbla skvísan við hliðina á okkur. Klukkan var ekki einu sinni orðin sjö þannig að mér datt ekki einu sinni í hug að fara á fætur, er meira að segja erfið framúr eftir að klukkan hringir hvað þá áður en klukkan svo mikið sem spáir í að hringja. Sú gamla ber í hurðina nokkrum síðan í viðbót og reynir síðan hurðarhúninn. Hvað er málið? Ætlaði hún bara að mæta inn til okkar og reka okkur á lappir???

En svo fer klukkan af stað 7:15 eins og alltaf og þá er kominn tími til að stíga á fætur. Örstuttu seinna er konan mætt aftur á hurðina og þá kemur í ljós að hún var búin að segja einhverjum gaurum sem eru að setja ljósleiðara í húsið að hún myndi verða heima fyrir hádegi og gæti þá hleypt þeim inn til okkar líka. Ég var svo útúr því að ég vissi ekkert hvað ég ætti að segja og hélt bara kjafti en ég ætla sko að ræða þetta við hana seinna.... ...ef ég þori!