Ásta skásta

29 júlí 2004

Skítaveður...  Má ekki bara vera inni að kúra í dag???

26 júlí 2004

Enn ein helgin liðin, þetta var líka ansi góð helgi :o)

Á föstudaginn eftir vinnu fór ég með Ámunda, Önnu og Abba í ferðalag norður á land.  Fengum bestu brauðstangir í heimi í gömlu sjoppunni í Borgarnesi, mæli hiklaust með þeim næst þegar að þið verðið svöng á því svæði.  Það var samt eiginlega eins gott að við stoppuðum á leiðinni til að fá okkur í svanginn af því að hamborgararnir sem við keyptum í Bónus komu ekki neitt ógurlega girnilegir af einnota grillinu sem Bónusmenn seldu okkur.
En alla vegna við tjölduðum í grennd við Varmahlíð því að þar áttum við að vera klukkan níu næsta morgun til að komast í rafting.  Eftir að hafa verið rekin af tveimur ættarmótum (þrátt fyrir þá viðleitni hjá Ámunda að koma vopnaður ættarmótsnafnspjaldi) komum við okkur vel fyrir út í enda á einu tjaldsvæðinu.  Þar var gott að vera. Einhverra hluta vegna þá vantaði aðra stöngina í annað tjaldið þannig að lausnin var að binda tjöldin bara saman en það var bara kósý.

Daginn eftir kom svo að því að skella sér í raft.  Eins og Tommi sagði þá er rafting í Austari ánni snilld, ég varð sko ekki svekkt með ferðina.  Okkar lið fékk franskan gæd og ég mæli hiklaust með honum ef þið eruð á leið í ánna.  Hann var bara snillingur, okkur bátur hvolfdi okkur þrisvar í ánna og ég hef fulla trú á því að það hafi allt verið honum að þakka!  Það var ekki nærri því eins mikill hasar hjá hinum.  Ég endaði með smávægilegt glóðarauga og hengingarfar á hálsinum eftir háskaförina.  Gef ferðinni fullt af stjörnum, alveg heilan helling.

Nú er allt að gerast í íbúðarmálunum og bráðum verður íbúðin gestahæf.  Erum þó reyndar búin að taka smá forskot á gestasæluna, en það er bara svona eins og gengur og gerist.

23 júlí 2004

Er aðeins búin að fikta og ætla svo að koma upp betri myndasíðu en í bili þá er hægt að sjá nokkrar af útlandamyndunum sem voru á instantlogic síðunni á:

 
svo fer ég að vinna í því að bæta myndasystemið og setja inn fleiri myndir.

Nú er vikan alveg að klárast (tveir tímar eftir af vinnuvikunni) og ég farin að hlakka til að skjótast norður í rafting :o)  Ég ætla að tjalda í Varmahlíð með Ámunda, Abba og Önnu -- bara A og Á sem rokkar í þeim félagsskap.  Er nú samt ekki hæstánægð með rigninguna en hún skapar kannski bara enn betri stemningu á jökulsánni á morgun.  Það er alla vegna eins gott að þetta verði rokk.

Enn erum við ekki búin að koma okkur nógu vel fyrir á Klapparstígnum.  Er rétt búin að ryðja óþarfa dótaríi út úr eldhúsinu en annað í algjörri vitleysu.  Tek sunnudaginn í það ef veðrið verður ekki nógu gott til að stökkva útúr grænu sprite vélinni sem ég stefni upp í einhvern tímann í vikunni.  Kláruðum fallhlífastökksnámskeiðið (í annað skiptið) í gærkvöldi, og ég ætla sko ekki aftur á þetta námskeið næsta sumar!

En alla vegna góða helgi allir saman...

21 júlí 2004

Jæja, það kom að því.  Það var hringt í mig áðan frá Mastercard og mér tilkynnt það að ég væri að versla með gullkortinu mínu í Ástralíu en silfurkortinu á Íslandi.  Ok, stundum hef ég staðið mig vel í að strauja kortin mín en aldrei svona vel! 

Ég fékk barasta í magann og bjóst við því að þurfa að vesenast heilmikið í því að fá þetta afturkallað.  En viti menn, ég þarf bara að skrifa undir það að ég hafi ekki verið að eyða þessum peningum og þá þarf ég ekkert að borga. 

Næst þegar ég fer í alvöru verslunarleiðangur í Kringluna ætla ég að senda einhvern langt út á land með hitt kortið og fá skuldina fellda niður :o)   
Djöfull verður það flott!!!

Annars er ég nú svolítið svekkt yfir því að einhverjum hafi tekist að falsa kortið mitt.  Ég passaði það nú sæmilega vel þarna úti og var alls ekki að borga með því hvar sem er.  En þeir eru víst duglegir þessir þrjótar.

Útilegan gekk þrusuvel. Þarna var mikil gleði í gangi, mest allan sólarhringinn...  Nú vil ég barasta hvetja alla til að missa ekki af MÚS 2005 en þá mun fjöldi þátttakenda margfaldast! Myndirnar af þessum viðburði koma til með að birtast mjög fljótlega og verða þá sérstaklega auglýstar hér á þessari síðu.  Annars er frásögn frá útilegunni á Sóðabróka síðunni.

En að öllu nýlegri fréttum þá flutti ég í gær. Ég og Ámundi minn tókum á leigu íbúð við Klapparstíg 3, 101 Reykjavík.  Öll nánustu ættmenni voru fengin á staðinn til að flytja allt dótaríið okkar og það er sko ekkert smotterí sem við erum búin að safna saman á undanförnum árum.

Nú verður bara málið að skila og flokka :o) 

Nú verða næstu vikur teknar í að ganga frá og skutlast með smádótarí niður í Sorpu. Vona að einhver annar geti notað eitthvað af fötunum mínum meira en ég hef gert...

Annars er engin smá dagskrá framundan. Í kvöld og annað kvöld fer ég í annað skiptið á fallhlífarstökksnámskeið, gleymdist einhverra hluta vegna að stökkva í fyrra!  Anna María mín kemur með mér í annað skiptið og nú er Ámundi líka kominn í hópinn. Þetta verður frábært og eitthvað til að segja frá þegar ég fæst loksins til að stíga um borð í vélina til að stökkva.

Á laugardaginn er stefnan tekin í rafting í Austari-Jökulsá í Skagafirði. Það er einmitt líka eitthvað sem mig hefur lengi langað til að gera.  Ferðin hefst klukkan níu um morguninn þannig að það getur verið að við leggjum af stað fljótlega eftir vinnu á föstudaginn og gerum ferð úr þessu.

Ég hlakka bara til :o)

09 júlí 2004

Jæja er að fara í útilegu á eftir. Nú er það MÚS sem rokkar, Mega úber Útilega á Snæfellsnesi.

Fer að sjálfsögðu með kameruna með og planið er að færa dæmið yfir á rafnem seinna og græja myndasíðu þar, sérstaklega þar sem að myndasíðan sem ég fann á netinu virðist hreinlega vera dottin út.

En alla vegna góða helgi.

02 júlí 2004

Núna er klukkan 16:19 á föstudegi ættarmóts.

Ég sit bara stillt í vinnunni að bíða eftir að vera sótt og fá liðið til að versla grillmat og læti. Var reyndar farin áðan en þá gómuðu tveir vinnugaurar mig fyrir utan og skipuðu mér inn að drekka bjór. Maður verður jú að hlýða yfirmönnunum þannig að nú er ég þegar byrjuð á kvöldinu.

Commentakerfið sem fylgir með þessari síðu er í einhverju hakki og ef einhver skyldi vilja skilja eftir einhverja athugasemd þá er bara um að gera að smella á anonymous þegar innskráningin mætir og þá er þetta ekkert maus.

En alla vegna, í dag er myndavélin með í för þannig að það koma inn nýjar myndir á mánudaginn. Svona ættar- og sveitamyndir :o)

Góða helgi krúttin mín

01 júlí 2004

Jæja þá er Ragnario Sköllari búinn að setja inn myndir. Kíkjið á Raggamyndir hérna til hliðar. Þar eru meira að segja nokkrar myndir af mér :o)