Ásta skásta

30 júní 2006

Jáhá, nú er bústaðarferðin beint framundan. Mér sýnist á veðrinu að það verði ekki mikið um útiveru en ég vona að það verði hægt að kveikja í brennu annað kvöld. Það er kannski fullmikil bjartsýni.

Gugga og Brynjulf lenda á landinu á eftir, vona að þau nái einhverri sól með sér. Ég vona alla vegna að rigningin hætti fyrir næstu helgi svo það verði hægt að mynda liðið utandyra og komast á milli kirkju og veislu án þess að verða rennblautur...

Ætla að kúpla niður í hálfan vinnudag í næstu viku, í dag er þá síðasti heili vinnudagurinn minn í bili. Heilsan er nokkuð góð en ég hef nú samt ekki orku í að gera neitt mikið meira en að vinna þannig að ég ætla bara að dekra við mig og taka mér frí eftir hádegi fram að síðasta vinnudegi sumarsins - veit nú reyndar ekkert hvenær hann verður :o)

Góða helgi!!!

26 júní 2006

Helgin var voða, voða fín. Ámundi ákvað að skjótast með og það var algjör lúxus að hafa hann sem driver. Ég sat bara í framsætinu og stjórnaði akstrinum þaðan - gaman að ferðast með mér...

Við tókum því bara rólega á Siglufirði, skutumst í sónar með pabba og eyddum miklum tíma í að skoða krílið. Það var best í heimi að sjá að krílið hafði það bara huggulegt og var duglegt að æfa sig í að anda :o)

Ámundi fór síðan að synda með Guðmundi og ég slappaði af í bænum og fékk ís í sólinni - lúxuslíf.

Við kíktum líka á nýju göngin, þeir eru rétt byrjaðir að róta í yfirborðinu en byrja að sprengja í september. Göngin eiga svo að vera vígð 1. des 2009, á níu ára afmælinu hans Guðmundar Árna bróður.

Næstu helgi á síðan að skjótast í Húsafell með Önnu og Abba það er nóg pláss fyrir fleiri en einhvern langar með í sveitasæluna :o)

22 júní 2006

Ég elska sólina :o) Loksins kemur skemmtilegt veður og ég er þvílíkt ánægð jafnvel þótt ég sé staðsett inni fyrir framan tölvuna.

Ég ætla að bruna norður á Sigló á morgun og vera yfir helgina. Það verður bara gaman að hitta bræðurna og náttla pabbann og Möggu. Pabbi ætlar að vera svo sætur að fara með mig í sónar og ég á örugglega bara eftir að vilja vera þar alla helgina. Áminn er eitthvað tregur á því að fara í ferðalag norður, finnst ekki spennandi að keyra svona endalaust lengst út í buskann... Ekki skil ég neitt í því!!!

20 júní 2006

Þá er ég komin með kvef - uppfull af hori, með rauð augu og alles. Eintóm gleði.

Hitti Njarðvíkurskvísurnar mínar á Horninu í gær. Við fengum allar hálfmána nema Anna sem fékk pítsu í hádeginu og síðan þrömmuðum við yfir á Kaffi París og skelltum okkur í kökuveislu. Nammi, nammi, namm.

Ég fékk að leggja mig eftir vinnu í gær og er núna nývöknuð að hlakka til að leggja mig eftir vinnu í dag. Það er svo gott að kúra :o)

19 júní 2006

Eini galli helgarinnar var hvað hún leið hratt. Ég hefði alveg verið til í tvo, þrjá frídaga í viðbót.

Við byrjuðum með Friðgeiri og Önnu Siggu í Sunnuhvoli í Grímsnesi. Þetta var voða kósý bústaður og við bara í kósý fíling. Við grilluðum um leið og við mættum og ég held bara að við ilmum enn af reyknum - skil ekki alveg afhverju. Við spiluðum ógurlega margar umferðir í Sequence, hitt liðið rétt vann mitt lið. Eftir spilatörnina hlupum við í heitan pott og síðan var skriðið í bælið.

Á þjóðhátíðardaginn skelltum við okkur í Reykholtssund, þar hittum við Heiði og Jóa og kvöddum Friðgeir og Önnu Siggu. Við höfðum það svaka huggulegt í pottinum og skyndilega flæddi að heill hellingur af prúðklæddu fólki. Þá var víst næsti dagskrárliður í 17. júní dagskránni í sundlauginni og við fylgdumst bara með úr pottinum. Bara skondið.

Eftir pylsu og ís var stefnan tekin í Skjöld sem er líka í Grímsnesi. Þar var þessi líka snilldarbústaður sem foreldrar Heiðar eiga. Grillið klikkar náttla aldrei í sumó og kókið mitt jafnaðist eiginlega alveg á við bjór - nema þá að ég var töluvert sprækari en sumir daginn eftir.

Góð helgi - takk fyrir mig

14 júní 2006

Loksins kom sumarlegt veður, góður dagur í gær. Ég er ekki alveg sátt við veður dagsins nema þá helst að það er þægilegra að vinna í roki heldur en sól.

Við fengum boð í tvo bústaði í gær, erum að spá í að skjótast bara sitt hvora nóttina og tækla þetta allt saman. Þannig að það er mikil grill, potta og spila helgi framundan hjá okkur. Ég var einmitt komin með mikla bústaðaþörf þannig að þetta er bara eins og pantað hjá mér :o)

Síðan er planið að smala rafmagninu saman á fimmtudaginn, það eru alltaf svona hittingar af og til en ansi langt síðan við hittumst síðast...

09 júní 2006

Föstudagur og helgin að mæta, hálftími eftir af vinnuvikunni og eins gott að nota tímann til að blogga.

Anna systir er komin suður og við ætlum að dedúast aðeins í dag. Kaupa snúrur og fleira spennandi. Við Ámundi fluttum ekki í gær en við gerum það annað hvort á eftir eða bara á morgun.

Við heimsóttum ljósuna í gær. Ámundi greyið var dreginn með. Þetta eru nú ekki merkilegar heimsóknir en samt gott að vita af því að það er fylgst með manni. Bumban er rúmlega staðalfráviki ofan við meðaltal, eins gott að gera þetta vel fyrst maður er að standa í þessu :o) Ljósan áleit að fóstrið hefði það bara huggulegt og hefði heldur betur nóg af vatni til að busla svolítið. Höfuðið sneri niður núna og líka síðast og bossinn nær eiginlega alla leið upp að rifbeinum og er til skiptis hægra og vinstra megin - bara fyndið að finna fyrir því.

Plan morgundagsins er að fara með litlu systur í ríkið og kaupa 120 flöskur af brúðkaupsvíni. Við verðum laglegar saman, önnur ófrísk og hin undir aldri - er reyndar búin að plata Ámunda með líka til að fegra ástandið. Um kvöldið á síðan að skjótast suður með sjó og halda upp á útskriftina hans Borgars.

Góða helgi :o)

07 júní 2006

Jádds, helgin var ljómandi fín og góð.

Við fórum í afmælispartý til Emils heima hjá Önnu og Emil á föstudaginn. Fengum snilldarinnar grillað lambalæri með gómsætu kartöflusalati og svo að sjálfsögðu rauðkáli og grænum baunum. Flestir fengu bjór eða rósavín úr massíft flottum Kjörískæli en ég sá nú bara um að þamba kóka kóla úr ísskápnum. Við vitleysingarnir stungum af í borgina rétt áður en stemmarinn endaði í svaka sveiflu á stofugólfinu.

Við sváfum endalaust á laugardaginn og horfðum svo aðeins á sjónvarpið. Hittum síðan Friðgeir og Önnu Siggu í bænum, kíktum með þeim á vagna og góða veðrið.

Abbi og Anna buðu okkur síðan í grillpartý og póker um kvöldið. Abbi hirti allan pókerpottinn, fallegi gestgjafinn... Við skutumst síðan í bæinn rétt fyrir lokun og stóðum nú örugglega svipað lengi í röð eins og inni á skemmtistaðnum - en þetta var nú samt gaman.

Anna systir kemur suður á morgun, loksins búin í prófum og þá flytjum við í Kópavoginn. Við verðum þar út júní-mánuð og komum okkur síðan örugglega aftur fyrir á Hótel Mömmu í Hjarðarhaganum. Bíllinn er ennþá skaddaður greyið en kemst vonandi fljótlega í lag. Sibba snillingur lánaði okkur bara kaggann sinn - þvílíkt dekrað við okkur :o)

Blessuð bumban stækkar hratt og er nú aðeins farin að segja til sín. Ekki séns að ég skoppi um í badminton fyrr en eftir að barnið lætur sjá sig. Það er pottþétt gaman að vera fluga á vegg þegar ég puða við að koma mér í sokka og buxur á morgnana og svo er líka boðið upp á nokkur önnur skemmtileg atriði yfir daginn :o)

01 júní 2006

Fjúff, loksins kom svarið frá sænska prófessornum. Ég er sko búin að vera á nálum hérna og næstum komin með magasár. Ég og prófvörðurinn vorum búin að ákveða að aflýsa prófinu ef að svarið væri ekki komið fyrir hádegi í dag. Ég fæ að taka prófið klukkan átta og það er bara eintóm lukka. Nú er bara málið að skrópa í vinnunni og læra svolítið í dag :o)

Síðan fæ ég að sækja bóndann í kvöld, það er nú líka lukka.

Þvílíkur lukkudagur í gangi hérna, múhaha...