Ásta skásta

24 ágúst 2004

Á sunnudaginn var svo bara skúra, skrúbba og bóna fílingur á Klapparstígnum því von var á krökkunum sem fóru með mér í útskriftarferðina. Við grilluðum og pítsuðum og skoðuðum myndir og hlógum líka aðeins.

Eins gaman og það er að margir verða eftir á Íslandi þá er líka hálf leiðinlegt að margir eru að fara út... En það er nú eins gott að maður haldi sambandi við þessa krakka því þau eru öll soddan snillingar. Þykir agalega vænt um rafmagnsliðið mitt. Kiddi tölvu- og spritesnillingur hringdi síðan til að bjóða mér í útskriftarmat sem verður á meðan ég er í Köben. Finnst alveg hundfúlt að missa af því en svakalega gaman að hann skyldi hafa boðið mér. Verð alla vegna með þeim í huganum.

Á laugardaginn var menningarnótt í Reykjavík, svona fyrir þá sem ekki vita. Það var algjör snilld að rölta um bæinn, fullt af fólki og fullt í gangi. Anna María og Emil komu í bæinn og ég rölti aðeins með þeim og Jönu skvísu.

Síðan var flugeldasýningin auðvitað snilldin eina og náttúrulega líka umferðin úr bænum eftir hana :o) Það var allt stopp fyrir utan hjá okkur heillengi eftir að allt var búið.

Síðan lentum við einhverra hluta vegna í agalegum röðum á djamminu, veit ekki alveg afhverju? En alla vegna þá enduðum við Ámundi með Önnu og Gebba inná Vegamótum. Þar nældum við í borð og héldum fast í það fram eftir nóttu.

Þegar ég og Ámundi komum heim sáum við Arnar Gísla Ámundabróður steinsofandi við póstkassana í blokkinni okkar. Þar hafði hann komið sér vel fyrir með fréttablað, malt, appelsín og nammi í poka. Bara kósý fílingur hjá stráknum. Fram eftir nóttu var töluverð umferð til okkar og það endaði með fjórum gestum í stofunni.


Mamma, elsku mamma flutti á föstudaginn. Nú er hún komin til Reykjavíkur og er í því að hreiðra um sig í vesturbænum. Skil ekkert í henni að flytja alltaf að skólanum mínum um leið og ég er að hætta. Þetta var líka svona þegar ég var í tíunda bekk í Njarðvík. Ekki það að ég hafi búið langt í burtu en við fluttum bara næstum í skólann tveim dögum eftir að ég útskrifaðist. Finnst nú samt frábært að hún er komin í borgina. Nú á ég eftir að sjá miklu meira af henni, ég er nebbla svo agalega löt við að fara til Njarðvíkur.

Flutningarnir gengur agalega vel og það lítur út fyrir að íbúðin verði ansi hugguleg. Ég vil því bara óska þeim alls hins besta á nýja staðnum :o)

20 ágúst 2004

Fór á Eldsmiðjuna í hádeginu í dag. Var sko boðuð á fund með vinnunni ;o)

Sátum úti bakvið og höfðum það ansi gott. Ég fékk risastóran bjór (verst að ég þurfti að borga hann sjálf). Er ekki frá því að ég þori ekki að keyra fyrr en klukkan fjögur... Nei, nei en ég er nú samt að missa mig í að tala miklu meira en venjulega. Það er kannski eins gott að allt fastráðna liðið var boðað á fund eftir hádegi annars væri ég örugglega að missa mig núna í að segja þeim frá einhverju ansi sniðugu..... Hí, hí

Tók seinna stökkið mitt í gær með AmyJ meiriháttar gellu með meiru. Það var geggjað gaman. Við fengum galla í stíl og vorum agalegar pæjur, myndi lofa mynd á næstunni ef ég vissi ekki að ég stend ekki við það.

Þetta stökk gekk töluvert betur en síðasta stökk, enda var ég miklu hræddari núna og ég held að það sé hollt fyrir mann. Útstökkið var nú svipað og síðast en lendingin var fullkomnuð núna. Ekki það að ég hafi lent á rassgatinu síðast...

Svo er stefnan bara tekin á frjálst fall næsta sumar, held að það sé hæfilegt markmið. Við Kónga ætlum bara að safna saman öllum peningunum okkar, kaupa námskeið í Flórída og stökkva svo endalaust. Við verðum líklega orðnar ansi geðveikar eftir allar sparnaðinn þannig að þetta endar örugglega allt í eintómu tjóni.

Mamma er að fara að flytja í bæinn á eftir þannig að ég verð bara kassaburðardýr það sem eftir er af deginum. Það verður fínt að fá hana svona í nágrennið, þá getur maður treyst á að fá eitthvað almennilegt að borða af og til :o)

Hlakka bara til að þvælast um miðbæinn á morgun, það verður pottþétt massastemmari. Elska svona gott veður. Svo verður maður að taka á því á djamminu og skemmta sér allt of vel.

19 ágúst 2004

Ég er algjör miðbæjarrotta! Eða það stendur alla vegna á nýja fína bolnum mínum sem Ámundi minn gaf mér í gær þegar að ég kom heim úr vinnunni. Hann stillti honum agalega fínt upp beint á móti hurðinni en svo sá ég ekki neitt nema í annað skiptið sem ég gekk fram hjá. Ég er ekki viss um að ég hefði getað haldið ró minni ef ég væri með svona plott en Ámundi sat bara stilltur með pókerfeisið þangað til að ég spottaði gripinn.

Annars verð ég nú að fá að lýsa því yfir að mér finnst gaman að blómum en er miklu sáttari og ánægðari með að fá svona snilldargjafir. Svo er það nú líka þannig í dag að blómvöndurinn er farinn að kosta álíka mikið og temmileg flík.

An alla vegna eintóm gleði með bolinn og audda kallinn líka.

Þeim sem vilja berja bolinn augum er bent á að hafa samband við mig í síma 694-2302 og ég verð til sýnis.

ÁFRAM ÍSLAND

Djöfull rokkuðu strákarnir okkar í öllum boltaleikjunum í gær :o) Maður klikkaði nú samt á því að skella sér á leikinn, það hefði nú líklegast verið snilld að vera á staðnum og ekki var veðrið að spilla fyrir. Enda var sett Íslandsmet í mætingu.

Svo er bara næsti handboltaleikur í fyrramálið, miðað við mínar heimildir þá er hann agalega snemma þannig að ég horfi líklega ekki á hann. Maður sest nú samt líklegast þunnur við imbann á sunnudaginn til að tékka á Rússunum.

17 ágúst 2004

Ég skal sko segja ykkur það... Ég eyddi mestum gærdeginum í Bubble, bobble í gömlu góðu Nintendo tölvunni sem við Gugga eigum. Mamma er að flytja og var að taka til í geymslunni og kom með eitthvað af dótinu sem var merkt mér til mín. Þar á meðal var auðvitað þessi snilldargripur.

Ég lét Ámunda fara í Lolo sem í minningunni var mjög heilabrjótandi leikur. En nei, nei hann rann léttilega í gegnum leikinn, án þess svo mikið sem að svitna. Ég man nú bara eftir því að við Gugga tókum heilan dag í leikinn og áttum í miklum vandræðum með þetta.

Síðan keppti ég við hann í dr Mario og ég telst enn vera meistari meistaranna...

Annars vorum við heillengi í Bubble, bubble og steingleymdum að fara að sofa. Man einhver lykilorðið sem þarf til að komast í síðasta borðið með 99 líf?????

En þeir sem vilja fara í Nintendo eru auðvitað þvílíkt velkomnir á Klapparstíg 3. Playstation, smeisstesjón!

16 ágúst 2004

Fór í kveðjupartý til Hildar á laugardaginn. Mætti dálítið seint þar sem ég byrjaði kvöldið með brekkusöng og flugeldum á Blómstrandi dögum í Hveragerði.

Fólkið var að komast í góðan fíling þegar að ég og Ámundi mættum. Innan skamms byrjaði Hildur elskan að rappa fyrir okkur við góðar undirtektir :o) Síðan dembdum við okkur í drykkjuleik sem skal teljast nokkuð góðir og skilaði ágætum árangri. Stemmarinn var massafínn hjá Hildi enda stórskemmtilegt fólkið sem hún þekkir.

Við skelltum okkur síðan á Ara í Ögri í þeim tilgangi að fá grjónagraut sem Heiður hafði prufukeyrt á staðnum. Ég hélt fyrst um sinn að Heiður væri að tala um alvöru grjónagraut og leist vel á blikuna en síðan kom í ljós að þetta var barasta staup. Ég missti áhugann um leið og ég komst að því. Með þessu staupi fylgdi heljarinnar show, það var kveikt í því og síðan stráð kanilsykri yfir það og það var svona stjörnuljósa fílingur á þessu. Svaka flott og ég mæli með því að kíkja í grjónagraut á Ara.

Eftir grjónagrautinn og reyndar fyrir hann líka týndist partýliðið í allar áttir og hver sá um að skemmta sér. Ég endaði í blístrandi stemmningu inn á Hressó þar sem sumir voru að kyssast en aðrir ákváðu bara að leggja sig. Ég var svona einhvers staðar í miðri stemmningunni með Heiði :o)

13 ágúst 2004

Audds... og ég gleymdi að segja frá því. Stökkstjórinn sem var með mér, Árna og Ormi í vél stökk berrassaður! Hí, hí, með tippalinginn út í loftið.

Loksins, loksins, loksins....

Nú er ég búin að fara í fallhlífarstökk :o) Það var ógeðslega gaman og mikill léttir að hafa höndlað þetta. Það eru nú samt fáir af þeim sem á annað borð mæta á svæðið sem hætta við enda er þetta hin besta skemmtun. Nú langar mig bara að fara í free-fall og kaupa mér fallhlíf.

Þetta var svona statik-línu stökk, það virkar þannig að það er spotti festur á milli mín og flugvélarinnar og þegar ég stekk út þá kippist í spottan fyrir mig og ég þarf ekkert að hafa fyrir því að toga út fallhlífina. Maður er látinn klifra út á vængstífuna og svo er bara að láta vaða. Þá er smástund þar sem maður er bara í lausu lofti og svo um leið og maður fattar það þá kippist í mann og maður er komin með þessa fínu fallhlíf fyrir ofan sig.

Ámundi fór líka og fjórir gaurar sem þið þekkið ekki neitt. Þetta gekk agalega vel hjá okkur öllum en svo var verið að metast um bestu lendingarnar. Mín var ekki til fyrirmyndar :o( Maður hlustar svona í talstöð hvað maður á að gera, gaurinn biður mann um að treysta sér og gera það sem hann segir. Því eins og í gær var smá hliðarvindur og mér var sagt að stýra langt frá lendingarstaðnum en svo fýkur maður bara á réttan stað. Ég klikkaði svo á bremsunum í lendingunni. Beið bara eftir að gaurinn segði flera en hann sagði bara toga, toga og ég skyldi ekki neitt og brotlenti næstum því, en samt lenti ég nú á fótunum en það gerðu ekki allir.

En fyrir þá sem eru alltaf á leiðinni að stökkva þá er bara um að gera að drífa sig!

12 ágúst 2004

Það eina sem mér finnst slæmt við góða veðrið er að það kemur akkúrat þegar ég á að vera að vinna til fjögur og læra fram á kvöld eftir það. Það stefnir bara í óefni með lærdóminn. Stalst til þess að læra ekki neitt í gær, fór í staðinn í smástund niður í Nauthólsvík eftir vinnu og eftir strandferðina fór ég síðan með Ámunda í Hveragerði þar sem markmiðið var að stökkva niður foss. Ótrúlega spennandi :o)

Fossinn leit nú alls ekki neitt illa út þegar að við mættum. Ég var hin brattasta. Þarna var fullt af litlum krílum og nokkrir 8-9 ára gamlir guttar sýndu mér hvar best var að fara. Þetta gat nú ekki verið mikið mál. Var ekki á leiðinni að láta krílin fara illa með mig, varð náttla að geta þetta fyrst þau stukku þarna vinstri hægri. En hænan ég stóð heillengi á brúninni og manaði mig upp í að stökkva, það tók nú nokkrar smástundir. En svo lét ég mig bara vaða og það var geggjað gaman :o)

Ámundi fór síðan með mig á bakvið fossinn og lét mig stökkva í gegn, það var geggjað gaman og gengur bara betur næst. Ég var nebbla líka dálítil hæna í því verkinu.

Síðan var stefnan tekin í annan foss aðeins ofar í ánni. Þar lenti einn gaurinn (hann Björn) dálítið illa og skar stórt gat í hælinn á sér. Eftir að hafa rætt við staðarlækninn var brunað með hann á slysó í Reykjavík. Ég stökk nú reyndar ekki í hjá seinni fossunum en þá hef ég bara eitthvað til að hlakka til!

11 ágúst 2004

Jæja þá er ég heldur betur búin að setja allt á annan endann hérna. Byrjaði með því að ég vildi laga commenta dæmið og það er sem sagt hægt að kommenta núna áfallalaust. En svo fylgdi bara ýmislegt annað í kjölfarið og breytingarnar verða pottþétt eitthvað aðeins meiri á næstunni.

Það er einmitt snilldin eina að sitja hérna inni í góða veðrinu að breyta blogginu sínu, en svona er þetta bara víst þegar maður er vinnandi fólk. Er nebbla líka aðeins að vinna í leiðinni, en samt bara aðeins :o)

Fékk snilldarhamborgara í hádeginu, virkilega djúsí og efnismiklir. Borðaði hamborgarann minn og drakk kók hérna fyrir utan í fyrsta flokks grillveislu. Svona á að gera þetta. Fannst bara sárast að þurfa að fara aftur inn til að setjast við tölvuna. En nú styttist í að ég fái afmælisköku því hann Bragi vinnufélagi á afmæli í dag...

Fór á PINK tónleikana í gær. Hún var bara flott skvísan en ég var nú ekki alveg sátt við það hvað hún hætti snemma. Var bara klukkutíma á sviðinu og tók ekkert aukalag eftir að hún hætti. Það er jú bannað að sleppa aukalögunum, þá er aðalstuðið.

Hún sagði samt að Ísland væri frábært eins og er skylduverk allra þeirra sem koma við á Íslandi til að halda tónleika. Svo sagði hún líka að við Íslendingarnir værum fucking sexy og hljómsveitin hennar væri fucking frábær. Bara snillingur hún PINK.

Hún byrjaði tónleikana á trommunum og í fyrsta laginu var ég agalega mikið að leita að skvísunni því að maður sá hana ekki neitt. En svo kom PINK bara af trommunum og byrjaði að dilla sér, þeir sem þekkja eitthvað til hljómsveitarinnar hafa örugglega fattað þetta strax því að trommuleikarinn er stór og svartur.

Hún söng líka agalega fínt og var ferlega dugleg við að gefa five á liðið fremst. Það var alltaf verið að týna litlar stelpur úr fremstu röðinni af því að það var komin svo mikil kremja þar. Svo var tvisvar beðið PINK um að biðja fólkið um að taka eitt skref afturábak af því að liðið væri hreinlega að hrynja niður. Þannig að hún tók sig bara til og fór að skvetta vatni á liðið fremst, bara krúttleg :o)

Annars fór ég niður á gólf með Eydísi þegar tónleikarnir voru svona hálfnaðir að mínu mati, en svo kom í ljós að það voru bara tvö lög eftir :o( En okkur fannst alls ekki vera nein agalega kremja þarna niðri, en það hefur nú samt örugglega verið nettur þrýstingur fremst.

Ég skemmti mér ansi vel á tónleikunum en hefði samt viljað skemmta mér lengur til að fullkomna dæmið. (Að vísu hefði líka mátt vera með eitthvað gott atriði/show til að fullkomna kvöldið). En alla vegna nokkrar stjörnur fyrir PINK, samt ekki fimm.

09 ágúst 2004

Þessi helgi fór heldur betur fyrir lítið. Er núna byrjuð að þykjast læra af og til fyrir haustprófið sem ég þarf að bögglast við.

Tók föstudaginn í að læra (entist alveg í heila þrjá klukkutíma!) endaði síðan með að líta við hjá Heiði og lenti þar í lasagna með osti veislu í nýju sófunum. Bara snilld, enda eru Heiður og Jói pjúra snillingar. Glápti aðeins á sjónvarpið og rölti svo heim til að glápa meira á sjónvarpið :o)
Vinir hans Ámunda kíktu í heimsókn á leið sinni á djammið og það var spjallað lengi frameftir. Svo um þrjúleytið fór brunaboði hússins í gang og bíbbaði á okkur alltof lengi. Við misstum okkur síðan úr þreytu og skildum Gebba eftir einan í stofunni á meðan við Ámundi fórum inn að hrjóta (ég var reyndar búin að taka forskot á hroturnar, eins og mér einni er lagið).

Komum okkur síðan út á laugardegi til að kíkja á Gay-pride gönguna. Það er hrein snilld að búa svona niðrí bæ, maður stígur bara út og er þá mættur í stuðið.
Um kvöldið var stefnan síðan tekin í afmælissilunga partý, ummmm... bara gott.
Eftir afmælið hitti ég síðan Ásu Maríu skvísu og fór með henni og Evu vinkonu hennar í bæinn. Stakk þær síðan af þegar við fórum í Vegamótaröð í annað skiptið og hitti kallinn og tjúttaði aðeins með honum.
Vorum búin að lofa hinum og þessum gistingu í stofunni okkar en það endaði með því að Ása var sú eina sem komst inn vegna þess að við sváfum svo fast að við hefðum ekki vaknað þó svo að húsið hefði hrunið. Heppin Ása að hafa fengið lánaða lyklana mína!!

05 ágúst 2004

Vá! Verslunarmannahelgin nýbúin og nú er næsta helgi að skella á. Mikið ógurlega líður tíminn hratt þegar vinnuvikan er bara fjórir dagar :o)

Verslunarmannahelgin fór bara ágætlega. Ákveðið var að fara í Úthlíð með ML-vinum hans Ámunda. Ég var eitthvað búin að dobbla Hildi, Önnu og Tomma til að koma með en það endaði með því að Anna María var ein um að kíkja á stelpuna.

Plönin fóru ekki alveg eins og á horfðist, veðrið var eitthvað að stríða okkur á föstudeginum þannig að hugurinn var ekki mikill. Við slæptumst eitthvað í Rvk en sáum svo til sólar og ákváðum að skella okkur bara af stað. Kipptum Gebba með úr Skálholti og fórum í Reykholt til Axels og kíktum í bústað sem Hilmar (lokalgaur) var að græja í grennd. Síðan eftir sumarbústaðaferðina höfðum við það agalega gott í svefnsófa í stofunni hans Axels. Merkilegt hvað það getur verið gott að liggja undir hlýrri sæng þegar það eru þrumur og eldingar úti.

Daginn eftir var rigning alveg þangað til að við ákváðum að smella okkur í sund. Um leið og ég steig í pottinn þá fór sólin að skína, eintóm gleði með það.

Þetta kvöldið (laugardagskvöldið) fórum við síðan í Úthlíð og reistum tjöld. ML-ingarnir fjölmenntu og úr varð ágætis tjaldborg. Síðan var auðvitað bara farið í að grilla, skála og blanda. Ball kvöldins var með hinni íslensku Korn hljómsveit, Mannakorn. Helga Möller rokkari sprangaði um pleisið en ég held að hún hafi alveg gleymt að syngja, man alla vegna ekki eftir því.
Á ballinu hitti ég Hobbu og Gumma (úr genginu hennar Heiðar) og Kristínu í rafmagninu (sem var að djamma með heilum hellingi af systrum), alltaf skal maður þekkja einhvern einhvers staðar. Ballið kláraðist á slaginu þrjú eftir að hafa gengið á með vangalögum mest allt kvöldið. Ekki alveg í stíl við mig þetta ball.

Á sunnudaginn rigndi líka þangað til við fórum í sund. Eftir sundið fórum við á Klettinn í Reykholti til að borða og það var eintóm gleði. Snilldarstaður með gólfmottur á borðunum, það er víst einhver hollenskur siður. Síðan þegar við snerum aftur í Úthlíð voru allir stungnir af, bara tjöldin okkar eftir á svæðinu. Við ákváðum þá bara að smella okkur í Flúðir og rokka þar með Rúnna Júll töffara um kvöldið. Það ball var hrein snilld, enda er Rúnni Júll sko svo sannarlega töffari með meiru.