Ásta skásta

05 ágúst 2004

Vá! Verslunarmannahelgin nýbúin og nú er næsta helgi að skella á. Mikið ógurlega líður tíminn hratt þegar vinnuvikan er bara fjórir dagar :o)

Verslunarmannahelgin fór bara ágætlega. Ákveðið var að fara í Úthlíð með ML-vinum hans Ámunda. Ég var eitthvað búin að dobbla Hildi, Önnu og Tomma til að koma með en það endaði með því að Anna María var ein um að kíkja á stelpuna.

Plönin fóru ekki alveg eins og á horfðist, veðrið var eitthvað að stríða okkur á föstudeginum þannig að hugurinn var ekki mikill. Við slæptumst eitthvað í Rvk en sáum svo til sólar og ákváðum að skella okkur bara af stað. Kipptum Gebba með úr Skálholti og fórum í Reykholt til Axels og kíktum í bústað sem Hilmar (lokalgaur) var að græja í grennd. Síðan eftir sumarbústaðaferðina höfðum við það agalega gott í svefnsófa í stofunni hans Axels. Merkilegt hvað það getur verið gott að liggja undir hlýrri sæng þegar það eru þrumur og eldingar úti.

Daginn eftir var rigning alveg þangað til að við ákváðum að smella okkur í sund. Um leið og ég steig í pottinn þá fór sólin að skína, eintóm gleði með það.

Þetta kvöldið (laugardagskvöldið) fórum við síðan í Úthlíð og reistum tjöld. ML-ingarnir fjölmenntu og úr varð ágætis tjaldborg. Síðan var auðvitað bara farið í að grilla, skála og blanda. Ball kvöldins var með hinni íslensku Korn hljómsveit, Mannakorn. Helga Möller rokkari sprangaði um pleisið en ég held að hún hafi alveg gleymt að syngja, man alla vegna ekki eftir því.
Á ballinu hitti ég Hobbu og Gumma (úr genginu hennar Heiðar) og Kristínu í rafmagninu (sem var að djamma með heilum hellingi af systrum), alltaf skal maður þekkja einhvern einhvers staðar. Ballið kláraðist á slaginu þrjú eftir að hafa gengið á með vangalögum mest allt kvöldið. Ekki alveg í stíl við mig þetta ball.

Á sunnudaginn rigndi líka þangað til við fórum í sund. Eftir sundið fórum við á Klettinn í Reykholti til að borða og það var eintóm gleði. Snilldarstaður með gólfmottur á borðunum, það er víst einhver hollenskur siður. Síðan þegar við snerum aftur í Úthlíð voru allir stungnir af, bara tjöldin okkar eftir á svæðinu. Við ákváðum þá bara að smella okkur í Flúðir og rokka þar með Rúnna Júll töffara um kvöldið. Það ball var hrein snilld, enda er Rúnni Júll sko svo sannarlega töffari með meiru.