Ásta skásta

28 febrúar 2006

Fjúff, var heldur betur á sprettinum í dag. Byrjaði daginn alltof snemma í verklegum tíma, þaðan fór ég svo í leiðindatíma þar sem ég þurfti að flytja skelfilegan fyrirlestur. Ég stamaði og roðnaði og blánaði og var alveg eins og sauður, sem betur fer var fyrirlestrarfélaginn ekki eins mikil mannafæla og þetta hafðist á endanum. En núna eru bara öll aðalleiðindin búin. Á eftir að gera ein skiladæmi fyrir föstudag og siðan eru það bara prófin í næstu viku. Reyndar þarf ég að vera dálítið dugleg að reikna og lesa, en það er víst bara partur af prógramminu.

Eftir þessi próf þá flytjum við í stóru höllina okkar. Fáum reyndar lyklana á morgun og það er frekar líklegt að maður skelli upp ljósum og einhverju smotteríi inn á milli lestrartarnanna.

Annars er fuglaflensan mætt til Svíþjóðar, því verr og miður :o(

26 febrúar 2006

Köbenferðin var agalega ljúf. Það var heldur betur annar í afmæli þegar að við komum til Guggu. Hún var búin að baka súkkulaðiköku fyrir okkur og lumaði á fullt af fínum gjöfum sem ég fékk síðan að eiga :o) Gugga kenndi mér síðan að gera snilldar gulrótarköku, sem við fengum í eftirkökurétt.

Við kíktum síðan í búðir á laugardeginum og ég fékk ógurlega fínar bumbubuxur. Reyndar er ég ekki alveg vaxin í þær en ég geri nú samt mitt besta í að safna í góða bumbu til að fylla upp í þær. Eftir búðarrápið elti ég síðan Ámunda í kökupartý til Röggu, Ingva og Sindra. Sindri er bara sætur, búinn að stækka fullt og var ferlega gæjalegur í buxunum sem við gáfum honum þegar hann kom í heiminn.

Þar sem að laugardagurinn var þriðji í afmæli ákváðum við að skjótast á Hereford sem brást sko ekki frekar en fyrri daginn, nammi, namm.

Í dag fengum við síðan forskot á bolludaginn og smökkuðum á nokkrum bollum með sultu og rjóma.... Bollur aftur á morgun :o)

Sælkerakveðjur, gleðilegan bolludag.

24 febrúar 2006

Vaknaði alltof snemma í morgun til að hitta finnska gaurinn sem ég þarf að halda fyrirlestur með á þriðjudaginn. Langaði bara að sofa lengur zzzZZZzzz.

Nú er ég að tækla matlab verkefni dagsins og mig langar ekkert að vera sofandi...

Fljótlega verður stefnan síðan tekin á Kóngsins Köbenhavn þar sem ég ætla að njóta þess að mikilvægustu verkefnin eru að opna pakka, borða og hafa það notalegt.

Góða helgi :o)

23 febrúar 2006

Vaknaði heldur betur með afmælisstýrurnar í afmælisaugunum, las afmælisessemmess og fékk afmæliskoss frá afmælishjásvæfunni. Vatt mér fram úr afmælisrúminu, burstaði afmælistennurnar og borðaði afmæliseríósið. Gekk síðan út í nýja afmælissnjóinn með afmælisbrakinu og fór í afmælisskólann og verð þar eitthvað fram eftir afmælisdeginum að gera afmælisverkefni.

Gleðilegan afmælisdag.

20 febrúar 2006

Við skelltum okkur í ekta íslenskt eurovision-partý á laugardaginn. Það var hægt að sjá söngvakeppnina í beinni á netinu, eða alla vegna hefði það átt að vera hægt. Útsendingin gekk ekki alveg nógu vel, stundum horfðum við á kyrrmynd af síðasta lagi á meðan við hlustuðum á næsta lag á eftir. Hljóðið var samt nokkuð gott og stoppaði ekki eins oft þannig að við létum okkur hafa þetta. Mér líst vel á að senda Silvíu Nótt út og hlakka til að sjá viðbrögðin hjá liðinu. Hún hlýtur að hræra dálítið í mannskapnum. Það verður nú samt töluverð áskorun að koma karakternum sæmilega yfir á ensku.

Gugga systir ætlar að vinna á Íslandi næstu þrjá mánuði, þannig að ég kem heim um það leyti sem hún fer aftur út. Ég vona bara að við fáum nokkra daga saman á Íslandi áður en hún þarf að fara aftur út í næsta starf. Ég ætla að skjótast til hennar á föstudaginn, þannig að við getum krúttast svolítið saman...

17 febrúar 2006

Föstudagurinn bara mættur - engin vísó í dag samt... aldrei aftur vísó :o(

Stærðarinnar læruhelgi framundan, verkefnin hreinlega hrúgast upp. Ég á að vera með stuttan fyrirlestur í einum áfanganum og ég kvíði ógurlega fyrir því. Þoli ekki svona fyrirlestra, það verður nú gott að klára það af.

Ég fór í badminton í gær og það var ógurlega gaman. Reyndar er maður orðin að algjörum aumingja eftir að hafa ekki gert neitt undanfarið, en nú er bara um að gera að bæta það upp og hreyfa á sér bossann. Næsta badminton verður svo á sjálfan afmælisdaginn...

Veit samt ekki alveg hvernig maður á að halda upp á daginn. Mig langar dálítið að skjótast á Hereford í Kaupmannahöfn, þar fær maður nefnilega besta kjöt í heimi. Kannski að ég plati Ámunda í svoleiðis ferð næsta föstudag - þá get ég líka hitt Guggu og Brynjulf og fengið afmæliskossa og knús :o)

15 febrúar 2006

Arnar og Jóna eru að heimsækja okkur. Núna eru þau heima að kúra en ég og Ámundi erum bara send í skólann og okkur sagt að læra eitthvað gagnlegt. Iss, piss...

Skötuhjúin eru búin að vera frekar dugleg að versla og koma ekki inn um hússins dyr nema með nýjan poka í hendinni, oftar samt nokkra poka heldur en bara einn.

Í gær fórum við fjögur saman í stórborgarferð til Malmö-city. Skoðuðum eiginlega bara búðirnar og Arnar fékk ekki einu sinni að sjá Turning Torso. Svíarnir eru ógurlega duglegir að halda upp á Valentínusardaginn og það eru sko ekki bara blómabúðirnar sem eru að selja. Hver einast búðargluggi var uppfullur af hjörtum og allt það sem minnti á hjarta í hverri búð var dregið fram og haft í öndvegi.

Ég held ekki upp á Valentínusardaginn en Ámundi krútt fór í leyni-búðarferð til að finna eitthvað sætt handa "sin gravida älskling" og kom heim með ferlega sæta peysu sem ég get notað núna og líka þegar að bumban fer að standa langt út í loftið. Aumingja Ámundi fékk ekki neitt sætt í gær og ég gleymdi meira að segja bóndadeginum... ég verð greinilega að bæta mig.

Arnar og Jóna ætla síðan til Köben á morgun og gista þar í eina nótt áður en þau fara aftur heim til Íslands. Við verðum samt bara stillt heima og einbeitum okkur að skólabókunum. Allt brjálað að gera í verkefnavinnu þessa dagana...

06 febrúar 2006

Nú er ég búin að taka góða rispu í að setja inn alls konar myndir, alveg síðan í nóvember! Kominn tími á þetta hehe...

Gugga er líka búin að setja inn myndir úr skíðaferðalaginu, endilega að kíkja á það líka.

05 febrúar 2006

Frakkland var snilldin eina. Veðrið gat varla verið betra, reyndar hefði verið dálítið magnað ef það hefði snjóað á nóttinni.

Ég er orðin ófrísk þannig að ég þurfti að fara dálítið varlega í brekkunum, bannað að taka óþarfa sénsa. Ég tók því bara vikuna í að þróa stílinn í staðinn fyrir að eltast við adrenalín. Í næstu skíðaferð verð ég því óvenju glæsileg í brekkunum - með vel fínpússaðar og úthugsaðar hreyfingar :o)

Pabbi, Magga og strákarnir voru með okkur í ferðinni. Magnús var á bretti, algjör töffari. Ámundi snillingur kenndi Guðmundi Árna að taka diskalyftuna og strákurinn var bara sætastur á skíðunum.

Ásdís heimsótti okkur og var með okkur í fjallinu síðasta daginn. Hún brunaði bara út um allt og var algjör skíðadrottning. Það var rosalega skemmtilegt að fá hana í heimsókn :o)

Gugga og Brynjulf fengu ælupest í ferðinni. Brynjulf tók heila nótt við ælupottinn en Gugga greyið var veik á leiðinni heim. Aumingja stelpan var hvítari en hvítt og ældi endalaust í rútunni, á flugvellinum og í flugvélinni. Skvísan sat beint fyrir aftan rútubílstjórann sem kipptist við í hvert skipti sem Gugga kastaði upp.