Ásta skásta

25 janúar 2006

Hér í Lundi er allt fullt af snjó. Það getur verið dálítið skemmtilegt að fylgjast með hjólagörpunum spóla svolítið í snjónum. Á leiðinni í skólann í dag hrundi ein gellan rétt fyrir aftan okkur þegar að hún fór aðeins of hratt í eina beygjuna. Ég og Ámundi erum svo miklir sniglar í vetrarfærðinni að annað fólk brunar fram úr okkur á leiðinni í skólann - bæði hjólandi og gangandi. Ég held að það sé vegna þess að allir hinir eru svo ferlega illa klæddir að þeir verði að labba eins hratt og þeir komast til að frjósa ekki fastir. Í dag sáum við til dæmis eina skvísu með beran magann út í loftið. Drrr, drrr, drrr, henni hlýtur að hafa verið kalt.

Í gær fengum við kisu í heimsókn inn á sameiginlega ganginn. Hún kom sér bara þægilega fyrir upp á ofni og hlýjaði sér svolítið. Mér fannst heilmikið huggulegra að koma að kisu kúrandi við ofninn inn á gangi heldur en rónanum sem ég fann þegar við bjuggum í Malmö. Það er allt svo miklu betra hérna í Lundi, hehe

Anna og Gugga ætla að koma hingað í paradísina á eftir og við ætlum að stelpast svolítið. Á morgun ætla ég síðan með þeim til Köben. Anna er búin að panta matarferð á Jenssen, þar er víst hægt að fá endalausan ís í eftirrétt :o) Litla skottan fer síðan heim snemma á föstudaginn og ég fer þá í útskriftina hjá stóru skottunni.

Á laugardaginn koma síðan pabbi, Magga, Magnús og Guðmundur og við skellum okkur síðan á skíði í Frakklandinu, ég hlakka til að skella inn myndum af öllu stuðinu þar. En meira um það seinna...

18 janúar 2006

Skólinn er strax kominn á fullt hjá okkur. Það kemur auðvitað ekki annað til greina en að massa þetta frá byrjun, sérstaklega þar sem planið er að skrópa í heila viku til að renna sér á skíðum í Frakklandi... Getur vel verið að Ásdís komi og kíki á okkur í brekkunum :o)

Anna systir ætlar síðan að kíkja á okkur í næstu viku og þá verður maður auðvitað að líta upp úr bókunum og gera eitthvað skemmtilegt með skvísunni. Hún er núna á bólakafi í skruddunum í próftíðinni í MA. Gugga systir tók síðasta prófið sitt í læknisnáminu í gær og útskrifast föstudaginn 27. janúar. Hún ætlar að kíkja á okkur í "höllina" á morgun.

Áðan sá ég snilldarinnar dreng. Hann var í grárri prjónapeysu sem var með risastóru rauðu hjarta framan á. Kærastan hans hefur örugglega prjónað þetta handa honum og gefið honum í jólagjöf... en hann líka duglegur kærasti að mæta bara í peysunni í skólann og vera þvílíkt lukkulegur með þetta. Ég þyrfti að senda hann Ámunda minn á námskeið hjá þessum gaur. Ég er búin að prjóna tvö pör af vettlingum handa honum. Honum fannst fyrra parið svo hræðilegt að hann neitaði að nota þá (sagði að þeir væru svo stórir að þeir myndu bara fljúga eitthvert út í buskann ef hann færi í snjókast) en komst auðvitað ekki upp með annað en að nota seinna parið. Síðan fer ég með honum í búðir og læt hann vera með vettlingana og allt í einu tilkynnir hann mér að hann sé barasta búinn að týna þeim. Voða lúmskur eitthvað - og svo er hann strax farinn að biðja um nýja vettlinga. Fallegi félaginn. Þarf að finna svona leikskólavettlinga í bandi handa honum.

Það er fáránlega kalt hérna í Lundi. Ég fer ekki neitt án þess að vera með húfu og vettlinga og helst í tveimur peysum og samt er mér alltaf kalt. Nú sit ég til dæmis í tölvustofunni í skólanum, í úlpunni, báðum peysunum og er samt með axlirnar upp að eyrum því mér er svo kalt. Durrrrrrr... En gaurnum í hjartapeysunni er nú samt örugglega ekki kalt :o/

17 janúar 2006

Já, einmitt... gleðileg jól. Gott að ég er dugleg að blogga :o)

Við erum komin aftur út til Svíþjóðar eftir agalega ljúft og huggulegt jólafrí. Skólinn byrjaði í gær og enn einu sinni mæti ég til leiks uppfull af metnaði. Venjulega endist þessi metnaður út vikuna, það kemur bara í ljós hvernig það verður í þetta skiptið.

Við erum búin að vera hérna í ca viku og tókum nokkra daga í að koma okkur sæmilega fyrir í herberginu okkar. Við vorum agalega dugleg að versla í IKEA, skellum inn einhverjum myndum eftir ca tvær vikur þegar að við fáum internetið heim. Já einmitt, hér tekur það tvær vikur að koma internetinu á stúdentagörðunum af stað.

Hingað til höfum við búið í Malmö og það er svo miklu betra að búa hérna í Lundi. Hér er allt fólkið og auðvitað skólinn líka. Algjört lúxuslíf.