Ásta skásta

03 ágúst 2005

Hringferðin gekk vel. Fullt af fínum stöðum til skoða, verst hvað við höfðum stuttan tíma til að skoða okkur um.

Gistum í Skaftafelli fyrstu nóttina, komum svolítið seint þangað. Gengum eins og allir aðrir upp að Svartafossi. Fengum snilldarveður :o) Fórum síðan að grilla í Höfn og svömluðum í lauginni þar fram eftir degi. Brunuðum síðan í einum spretti upp á Egilstaði, þaðan í Atlavík. Þar var bara hið argasta fjölskyldufólk þannig að við snerum við og fórum á Neistaflug í Neskaupstað. Á Neistafluginu voru allir peðölvaðir og náskyldir þannig að mér fannst ég ekki passa alveg nógu vel í hópinn. En það var nú hægt að skemmta sér vel við að fylgjast með liðinu og dilla sér svo á dansgólfinu inn á milli skemmtiatriða.

Daginn eftir fórum við aftur í gegnum Egilsstaði og Atlavík, þaðan inn Fljótsdal og upp á Kárahnjúka. Tókum skyldumyndir þar í roki og sól. Fórum síðan í mikla ófæruferð niður að þjóðveginum. Það var búið að vera svo þurrt að bíllinn fylltist af ryki og vegurinn var hræðilegur. Það tók okkur rúma tvo tíma að keyra 35 km, þetta var skelfilegt!!! Við vorum svo svaka þreytt loksins þegar við komumst aftur á skrið að við vorum frekar löt við að stoppa. Lögðum ekki í malarveginn að Dettifossi og misstum af Græna lóninu því við vorum svo seint á ferð. Við náðum nú samt að hressa okkur við í Námaskarði og við Dimmuborgir. Enda vorum við ennþá með veðurguðina í okkar liði.

Komum til Siglufjarðar áður en fólkið þar komst á fætur og vöktum liðið með agalegum látum. Þar höfðum við það svakalega huggulegt og vorum í góðum málum með familíunni.

Smelli inn myndum í kvöld eða á morgun :o)