Ásta skásta

31 janúar 2005

Helgin einkenndist af nýrnasteinunum hans Ámunda. Þeir byrjuðu að láta vita af sér á miðvikudaginn og görguðu svo alltaf hærra og hærra þar til að við komum okkur fyrir á slysó á föstudaginn.

Við vorum það heppin að mæta um leið og leikurinn við Rússa var að byrja og allir Íslendingarnir sátu heima að horfa á sjónvarpið. Þvílík lukka, ég kom mér fyrir í plaststólunum í biðstofunni en Ámundi fór innfyrir í píningar.

Leikurinn endaði illa og ég skutlaði Ámunda uppdópuðum heim um sjöleytið eftir fjögurra tíma heimsókn. Við náðum í snakk, gos og pítsu fyrir strákinn og svo stakk ég af í saumaklúbbsmatarboð til Amy J. Þar fékk ég þvílíkt gott pasta, súkkulaðiköku og smávegis slúður beint í æð. Við Anna fórum illa með Siggu og Beggu í Pictionary og síðan kom ég mér bara heim til að hjúkra drengnum.

Laugardagurinn var letidagur. Hitti pabba, Möggu og strákana. Guðmundur Árni hélt allan tímann að ég væri Gugga og svo rétt áður en ég fór kom upp úr honum... "Ert þú Ásta??" Hann er bara krútt. Magnús var búinn að fara í klippingu og er nú kominn með drengjakoll. Fyrir þá sem ekki vita þá var hann með hár niður á herðar.

Um kvöldið fórum við Ámundi með Önnu og Emil í bíó. Við fórum á Aviator, mér fannst myndin fín en hefði verið betri ef hún hefði ekki verið svona hræðilega löng. Vorum í Háskólabíó og þangað fer ég ekki aftur á þriggja tíma mynd. Var komin með verki alls staðar eftir þessi sæti, leið barasta eins og áttræðri skvísu. Það er nú reyndar í stíl við Áma sem haltraði eins og gamall karl útaf nýrnasteinunum. Gott par maður :o)

Í gær kom síðan elsku Anna heim frá elsku Guggu. Þær voru búnar að missa sig í kóngsins Köben og Anna kom heim með heilan helling af nýju dótaríi. Fékk hana til að kaupa íþróttatösku fyrir mig til að fara með í badmintonið.. er strax búin að taka til dótið fyrir morgundaginn :o)