Ásta skásta

02 nóvember 2004

Laugardagurinn var síðan DAGURINN. Vaknaði alltof snemma til að fara í litun og plokkun hjá píningakonu dauðans. Henni fannst ég ekki vera með fínar augabrúnir, enda ekkert skrítið þar sem ég var búin að safna fullt af hárum svo að hún myndi nú fá að gera eitthvað fyrir alla peningana sem hún tekur af manni fyrir að hreinsa til á enninu mínu.

Beint eftir snyrtidæmið hringdi ég Önnu systur úr bælinu til að fara að versla afmælisgjöf handa Guggu systur. Þegar ég kom heim, kom í ljós að Ámundi vildi fara líka þannig að ég dró hann líka úr bælinu. Hrein snilld! Þannig að við fórum þrjú í búðarráp, ég held samt að Ámundi hafi engan veginn gert sér grein fyrir því hvað það er erfitt að kaupa afmælisgjafir því að hann gafst upp eftir þrjár búðir og fór að skoða hús morgundagsins. Hann þurfti reyndar að kíkja á húsið tvisvar því að við vildum líka fá að sjá það! Það var helvíti töff, fullt af alls kyns tæknidóti sem mig langar í. Langar reyndar líka í sófa og borð sem ég sá þarna en það er önnur saga. Afmælisgjöfin fannst síðan á endanum og fer út á morgun (afmælið er sko á sunnudaginn).

Eftir afmælisbrasið var það kría, sturta, blása, snyrta, slétta, mála, strauja, pússa, klæða og svo æða af stað í partý númer eitt.

Partý númer eitt var í töff íbúð í Borgartúni. Þetta var svona kvikmyndadæmi, beint inn í íbúðina úr lyftunni :o) Við klikkuðum á að taka með okkur blóm til að skilja eftir en fengum samt hvítvín í glas og skoðunarferð um pleisið. Þetta var þriggja herbergja íbúð með tveimur baðherbergjum, hvort á móti öðru. Þarna var líka pláss fyrir fataherbergi, mig langar í svoleiðis.

Partý númer tvö var í Perlunni. Þar var hún María fyrrverandi þýskukennari við FS, hún sagði mér nokkrum sinnum í matnum að mamma væri æði... Áfram mamma! Maturinn var svaka góður og hreindýrið þvílík snilld. Ég át og át og át og það var magnað :o) Síðan eftir matinn fórum við öll í koníaksstofuna og skáluðum fyrir vel étnum mat. Eftir alla veisluna stungum við Ámundi bara af, án þess að borga...

Partý númer þrjú var hjá Jóa. Þar var ekki mikil gleði þegar við mættum loksins. Enda höfðu tveir ungir menn staðið í slagsmálum og íbúðin er bara ekki nógu stór í verkið. Við stoppuðum stutt þar og fórum svo bara í bæinn með Heiði rokkara, Sigrúnu svölu, Kóngu kúl, Jóa spóa og kærustunni hans Bogga. Í bænum hitti ég síðan Siggu sætu, Hildi gellu og Önnu pæju.

Eftir djammið kom Anna með mér heim að panta pítsu. Við vorum steinsofnaðar þegar pítsan mætti og höfðum enga lyst á henni þannig að hún var bara á borðinu þegar Ámundinn kom svo heim... og við steindauðar í sófanum :o) Rétt eftir að ég og Ámi bjuggum um Önnu þá kom svo Sigga að sækja hana og enginn svaf í stofunni...